Um hátíðina
Reykjavík Early Music Festival er fyrsta alþjóðlega barokkhátiðin í Reykjavík og verður nú haldin í annað sinn, dagana 14.-17. apríl 2025 í Hörpu. Hátíðin er einstakur vettvangur fyrir samstarf íslenskra og erlendra tónlistarhópa sem sérhæfa sig í upprunaflutningi barokktónlistar. Listræn stjórn hátíðarinnar er í höndum Elfu Rúnar Kristinsdóttur, fiðluleikara og eins stofnanda Barokkbandsins Brákar.
Á hátíðinni í ár kynnum við fyrir landsmönnum eina þekktustu barokksveit heims – hina goðsagnakenndu Akademie für Alte Musik Berlin en bjóðum einnig uppá frumlega og nýungjagjarna tónlistarhópa eins og Gadus Morhua Ensemble. Við bjóðum upp á tónleika með einu þekktasta tónlistarverki barokktímans sem sjaldan heyrist á Íslandi, Goldberg-tilbrigðin eftir Bach, í túlkun hins margverðlaunaða pólska semballeikara Marcin Świątkiewicz sem og falinn fjársjóð frá 17. öld með alþjóðlega kammerhópnum Concerto Scirocco, sem koma með hljóðfæri til landsins sem ekki oft heyrist í, eins og sink og barokk básúnur. Barokkbandið Brák mun halda uppá 10 ára afmælið sitt á hátíðinni, og hópur frá Finnlandi, Espoon Barokki sömuleiðis!
Í ár verður einnig meiri fókus á yngri kynslóðirnar, bæði verður boðið upp á Krílabarokk fyrir þau allra yngstu, undir leiðslu Svöfu Þórhallsdóttur og Krakkabarokk með Natalíu Duarte og Önnu Tóth fyrir börn frá fjögurra ára aldri. Einnig verða hádegistónleikarnir á sínum stað í Hörpuhorni. Þá verður opin vinnustofa í samvinnu við MÍT og LHÍ í Norðurljósum þar sem nemendur fá tækifæri til að vinna ákveðið tónverk með Akademie für Alte Musik, og koma þeir einnig fram á lokatónleikum hátíðarinnar.
Skipuleggjendur hátíðar
Listrænn stjórnandi
elfarun.com
Gjaldkeri og framkvæmdastjórn
Kynningarstjóri
herdisanna.com
Markaðsfulltrúi
Grafískur hönnuður