RACHEL PODGER


Rachel Podger, fiðluleikari hefur hlotið óviðjafnanlegt lof og hefur fest sig í sessi sem einn fremsti túlkandi barokks og klassíkur. Hún var fyrsta konan til að hljóta hin virtu Bach-verðlaun frá Royal Academy of Music/Kohn Foundation árið 2015. Þá var hún Listamaður ársins 2018 hjá Gramophone og sendiherra fyrir Early Music Day REMA (Réseau Européen de Musique Ancienne) árið 2020.

Rachel hefur einnig helgað sig kennslu og hefur heiðursstöðu bæði við Royal Academy of Music og Royal Welsh College of Music and Drama. Hún kennir einnig við The Juilliard School í New York.
ARTE DEI SUONATORI


Arte dei Suonatori er þekktasta barokkhljómsveit Póllands, en hún fagnar nú 30. starfsári sínu. Frá stofnun hefur hljómsveitin starfað með mörgum af helstu flytjendum frumtónlistarheimsins og í yfir 3 ár hefur sveitin átt í sérlega frjósömu samstarfi við Marcin Swiatkiewicz, einleikara og hljómsveitarstjóra.

Hljómsveitin hefur gefið út 18 geisladiska hjá þekktustu útgáfufyrirtækjum heims (BIS, Alpha, Channel Classics), og hefur hlotið hinar ýmsu viðurkenningar og verðlaun á ferlinum, s.s. Gramophone Award, Diapason d’Or, Classic FM Magazine verðlaunin og Choc du Monde de la Musique.

Arte dei Suonatori heldur reglulega tónleika um alla Evrópu, en hefur einnig komið fram í Norður-Ameríku og Asíu. Arte dei Suonatori hefur einnig gert fjölmargar útvarps- og sjónvarpsupptökur fyrir m.a. BBC, Danmarks Radio (DR), SWR, Polish Radio Program II, Mezzo, TVP Kultura og TVP1.

AMACONSORT


Amaconsort skipa Lea Sobbe, Martin Jantzen, Lena Rademann og Halldór Bjarki Arnarson. Barokkhópurinn hreppti fyrsta sæti í alþjóðlegu Van Wassenaer keppninni í Utrecht 2021 og hefur komið fram víðsvegar um Evrópu undanfarin ár. Spuni og nýsköpun skipa stóran þátt á tónleikum hjá Amaconsort, svo að áheyrendum bíður ávallt ný upplifun. Þótt meðlimir séu aðeins fjórir spila þau á ýmis hljóðfæri, stór og smá, og skapa þannig fjölbreytilegan tónvef.
BAROKKBANDIÐ BRÁK


Barokkbandið Brák hefur skipað sér fastan sess í íslensku tónlistarlífi síðustu misseri.  Hópinn skipa hljóðfæraleikarar sem eiga það sameiginlegt að hafa sérhæft sig í upprunaflutningi á tónlist barokktímabilsins og vilja nýta þessa þekkingu til tónleikahalds og verkefna á Íslandi. Brák hefur verið starfrækt frá árinu 2014 og var stofnað af fiðluleikurunum Elfu Rún Kristinsdóttur, Laufeyju Jensdóttur og Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur. 

Brák hefur staðið fyrir fjölda tónleika í Reykjavík og víðar frá árinu 2015 og fær hópurinn reglulega til liðs við sig íslenska jafnt sem erlenda hljóðfæraleikara, söngvara og dansara til að glæða nýju lífi í tónlist barokks- og endurreisnartímans. Þá hefur Brák einnig haft það að leiðarljósi að efla nýja tónsköpun fyrir upprunahljóðfæri með því að frumflytja reglulega verk eftir íslensk samtímatónskáld. 

Brák hefur hlotið góðar viðtökur jafnt áheyrenda og gagnrýnenda og verið lofuð fyrir líflegt og fjölbreytt tónleikahald frá stofnun hópsins. Þónokkrir tónleikar Brákar hafa verið hljóðritaðir og þeim útvarpað af Ríkisútvarpinu. Þá hefur Brák margsinnis hlotið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, sem Tónlistarflytjandi ársins (2017, 2018 og 2020) en einnig fyrir Tónlistarviðburð ársins í flokki sígildrar- og samtímatónlistar (2018 og 2020).  Verðlaunin féllu einmitt hópnum í skaut árið 2020 fyrir tónleikana Brák og Bach sem fram fóru í Eldborgarsal Hörpu í september sama ár.


VLADIMIR WALTHAM


Vladimir Waltham er franskur hljóðfæraleikari sem leikur á flest hljóðfæri sem tengjast sellóinu; mismunandi stærðir af gömbum, líróne, barokkselló (4/5 strengja) og auðvitað selló okkar tíma. 

Vladimir hefur brennandi áhuga á öllum tónlistarstílum, og spilar reglulega tónlist sem spannar allt frá miðöldum til dagsins í dag og vinnur reglulega með tónskáldum fyrir frumflutning verka.

Vladimir er meðlimur í Linos píanótríó, en tríóið heldur reglulega tónleika víða um Evrópu, og hefur einnig komið fram í Ástralíu og Tælandi. Hann er leiðandi sellóleikari barokkhópsins La Serenissima í London og spilar einnig reglulega sem fyrsti sellóleikari annarra barokkhópa, svo sem {oh!} Orkiestra og Ensemble 1700.

ELFA RÚN KRISTINSDÓTTIR


Elfa Rún Kristinsdóttir hlaut fyrst alþjóðlega athygli þegar hún vann fyrstu verðlaun í Johann Sebastian Bach tónlistarkeppninni í Leipzig árið 2006. Hún var tilnefnd til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2023.

Elfa Rún var meðlimur og konsertmeistari Solistenensemble Kaleidoskop í Berlín á árunum 2006-2014 og hún leikur reglulega með Akademie für Alte Musik Berlin þar sem hún kemur einnig oft fram sem einleikari eða konsertmeistari. Elfa Rún er listrænn stjórnandi og einn stofnmeðlima Barokkbandsins Brákar sem hélt sína fyrstu tónleika á Íslandi 2015, og hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda síðan.

Elfa Rún vinnur reglulega með listamönnum annara listgreina og hefur meðal annars tekið þátt í sýningum danshöfundarins Sasha Waltz, leikur reglulega með leikhópnum 'Nico and the Navigators' og hún hefur komið fram í leiksýningum í Schaubühne Berlin og sviðsettum tónleikum í Konzerthaus Berlin.


HERDÍS ANNA JÓNASDÓTTIR


Herdís Anna Jónasdóttir, sópransöngkona hefur á ferli sínum hér- og erlendis öðlast reynslu í flutningi á margs konar tónlist, jafnt ljóðasöng sem óperu, kirkjutónlist, söngleikjum og samtímatónlist.  Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum óperu- og söngleikjauppfærslum, en hún var frá 2013-18 fastráðin við Ríkisleikhúsið í Saarbrücken. Á Íslandi hefur hún tvívegis sungið með Íslensku óperunni, Musettu í La boheme og Víólettu Valery í La traviata. Þá hefur Herdís  margsinnis komið fram á tónleikum, s.s. með Kammersveit Reykjavíkur, Caput-hópnum, á ýmsum tónlistarhátíðum, með Saarlensku ríkishljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Færeyja og Sinfóníuhljómsveitinni í Canberra, Ástralíu, sem og með minni kammerhópum og hljóðfæraleikurum, einnig í útvarpi og sjónvarpi. Í nóvember sl. söng hún á tónleikunum Furie terribile með Barokkbandinu Brák.
Herdís Anna hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir söng sinn, m.a.  Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir söng ársins 2022, Grímuna árið 2019 og hún var valin Söngkona ársins í Saarbrücken vorið 2016.
Fyrsta sólóplata Herdísar Nýir vængir kom út 2021, hvar hún, ásamt Bjarna Frímanni, flytur íslensk sönglög, gömul og ný. 


KAMMERHÓPURINN CONSORTICO


Kammerhópurinn ConsorTico hóf störf á Íslandi árið 2023. Hópinn skipa íslenskir og erlendir tónlistarmenn sem hafa sérhæft sig í upprunaflutningi. Þeim leikur einkum hugur á að rannsaka sjaldheyrða evrópska og rómansk-ameríska tónlist frá 16., 17. og 18. öld.


Hópurinn skipar að þessu sinni:María Konráðsdóttir, sópran
Mathias Spoerry, baritón
Sólveig Steinþórsdóttir, barokkfiðla
Natalia Duarte, barokkvíóla
Sigurður Halldórsson, barokkselló
Sergio Coto, theorba/barokkgítar
Sólveig Thoroddsen, barokkharpa