BAROKKBANDIÐ BRÁK
Barokkbandið Brák hefur skipað sér fastan sess í íslensku tónlistarlífi síðustu misseri. Hópinn skipa hljóðfæraleikarar sem eiga það sameiginlegt að hafa sérhæft sig í upprunaflutningi á tónlist barokktímabilsins og vilja nýta þessa þekkingu til tónleikahalds og verkefna á Íslandi. Brák hefur verið starfrækt frá árinu 2014 og var stofnað af fiðluleikurunum Elfu Rún Kristinsdóttur, Laufeyju Jensdóttur og Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur.
Brák hefur staðið fyrir fjölda tónleika í Reykjavík og víðar frá árinu 2015 og fær hópurinn reglulega til liðs við sig íslenska jafnt sem erlenda hljóðfæraleikara, söngvara og dansara til að glæða nýju lífi í tónlist barokks- og endurreisnartímans. Þá hefur Brák einnig haft það að leiðarljósi að efla nýja tónsköpun fyrir upprunahljóðfæri með því að frumflytja reglulega verk eftir íslensk samtímatónskáld.
Brák hefur hlotið góðar viðtökur jafnt áheyrenda og gagnrýnenda og verið lofuð fyrir líflegt og fjölbreytt tónleikahald frá stofnun hópsins. Þónokkrir tónleikar Brákar hafa verið hljóðritaðir og þeim útvarpað af Ríkisútvarpinu. Þá hefur Brák margsinnis hlotið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, sem Tónlistarflytjandi ársins (2017, 2018 og 2020) en einnig fyrir Tónlistarviðburð ársins í flokki sígildrar- og samtímatónlistar (2018 og 2020). Verðlaunin féllu einmitt hópnum í skaut árið 2020 fyrir tónleikana Brák og Bach sem fram fóru í Eldborgarsal Hörpu í september sama ár.
CONCERTO SCIROCCO
Hljómsveitin Concerto Scirocco, stofnuð árið 2009, helgar starfi sínu sögulega upplýstum tónlistarflutningi. Þessi fjölbreytti hópur hljóðfæraleikara sem leika á forn hljóðfæri hafa sameiginlega ástríðu fyrir tónlist endurreisnar, snemmbarokks og barokktímans. Þau leitast við að sameina persónulega sköpunargleði með vitund um sögulegan upprunaflutning.
Concerto Scirocco er þekkt fyrir framúrskarandi listfengi, þar sem nákvæm söguleg rannsókn sameinast lifandi tónlistarfærni. Flutningur þeirra gefur sögulegri tónlist líf og býður áheyrendum upp á ríka og djúpa upplifun. Hljómsveitin kemur reglulega fram á virtum hátíðum og tónleikastöðum um alla Evrópu, þar á meðal á Festival Oude Muziek í Utrecht, Innsbruck Early Music Festival og fjölmörgum ítalskum tónleikaröðum.
Starf Concerto Scirocco er einnig helgað fræðslu og miðlun, og halda þau vinnustofur og fyrirlestra sem miða að því að efla dýpri skilning á fornri tónlist. Ástríða þeirra fyrir frásögn í gegnum tónlist tryggir þeim áberandi sess sem virt rödd barokksenunnar í Evrópu.
MARCIN ŚWIATKIEWICZ
Marcin Świątkiewicz er einn þekktasti semballeikari yngri kynslóðarinnar og handhafi „Polityka“ verðlaunanna árið 2015. Hann leikur á ýmsar tegundir sögulegra hljómborðshljóðfæra og vinnur reglulega með leiðandi alþjóðlegum og pólskum tónlistarhópum eins og Brecon Baroque, Arte dei Suonatori og {oh!} Historical Orchestra. Með þessum hópum hefur hann tekið upp fyrir plötuútgáfur eins og BIS, Channel Classics, Accent, Alpha, Decca, Linn Records og DUX, auk útvarps- og sjónvarpsstöðva víðsvegar um Evrópu. Árið 2015 gaf hann út plötu með sembalkonsertum eftir síðbarokktónskáldið Johann Gottfried Müthel (sem hlaut Diapason d’Or verðlaunin) og árið 2017 kom út hin margverðlaunaða plata Cromatica. Upptaka hans á Rosenkranz sónötunum eftir Biber (með Rachel Podger og David Miller) vann til Gramophone verðlaunanna.
AKADEMIE FÜR ALTE MUSIK BERLIN
Akademie für Alte Musik Berlin, stofnuð árið 1982, er ein fremsta hljómsveit heims sem leikur á upprunaleg hljóðfæri. Með aðsetur í Berlín er Akamus þekkt fyrir sögulega upplýstan flutning á tónlist frá barokktímanum, klassíska tímabilinu og upphafsárum rómantíska tímans. Með yfir fjögurra áratuga frumkvöðlastarfsemi hefur hljómsveitin skipað sér sess sem lykilaðili í endurreisn tónlistar fyrri alda.
Akamus kemur reglulega fram á virtu tónleikastöðum eins og Konzerthaus Berlin, Philharmonie Berlin, og alþjóðlegum hátíðum, þar á meðal Innsbruck Early Music Festival og Edinburgh International Festival. Hljómsveitin hefur gefið út yfir 100 verðlaunaplötur og hlotið viðurkenningar á borð við Grammy, Diapason d’Or og Echo Klassik.
Hljómsveitin vinnur með fremstu hljómsveitarstjórum, einleikurum og óperuflutningum um allan heim, oft í samstarfi við listamenn á borð við René Jacobs og Önnu Prohaska. Sköpunargleði þeirra kemur fram í hugmyndaríkum dagskrám sem sameina sögulegan réttmæti og nútíma listræna sýn.
Þekkt fyrir kraftmikla og líflega flutninga hefur Akamus skapað sér tryggan áhorfendahóp um allan heim. Hvort sem þau flytja verk Bachs, Handels eða Mozarts halda þau áfram að veita innblástur og endurskilgreina möguleika flutnings tónlistar fyrri alda.
ESPOON BAROKKI
Kammerhópurinn Espoon Barokki frá Finnlandi fagnar 10 ára starfsafmæli sínu með tónleikaferð til Íslands á Reykjavík Early Music Festival. Espoo Baroque er hópur upprunahljóðfæraleikara sem búa og/eða starfa í næststærstu borg Finnlands, Espoo. Fyrstu tónleikar hópsins voru haldnir í Dómkirkjunni í Espoo árið 2015 og í kjölfarið hefur Espoo Baroque komið fram á tónleikum á fleiri en 30 ólíkum stöðum í Finnlandi. Espoo Baroque hefur verið þátttakandi á ýmsum tónlistarhátíðum í Finnlandi og leikið undir stjórn barokk sérfræðinga svo sem Anssi Mattila, Aapo Häkkinen og Sirkku-Liisu Kaakinen-Pilch. Hópurinn flytur reglulega stór kirkjutónlistarverk eftir Bach, svo sem Jóhannesar- og Matthíusarpassíurnar, h-moll messuna og Jólaóratoríuna í samvinnu við kóra frá Espoo. Frá hausti 2019 hefur Espoo Baroque staðið fyrir sinni eigin barokk tónlistarhátíð, Espoo Baroque Days sem er haldin árlega á ólíkum stöðum í borginni. Árið 2025 à Espoo Baroque 10 ára starfsafmæli.
GADUS MORHUA
Langspil og barokkselló hittust fyrst - svo vitað sé - á þjóðbúningahátíðinni Skotthúfunni í Stykkishólmi sumarið 2016. Samhljómur þeirra gaf ímyndunaraflinu strax lausan tauminn og
úr varð ný tónlistarstefna: baðstofubarokk.
Eyjólfur Eyjólfsson, Björk Níelsdóttir og Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir mynda Gadus Morhua Ensemble. Hafa þau komið fram við hin ýmsu tækifæri, innan landsteina sem utan.
Árið 2020 kom út fyrsta plata hópsins, Peysur og parruk, og á næstunni kemur út önnur platan þar sem gömlu fjárlögin eru færð í ný og fín föt.
Gadus Morhua er latneska fræðiheitið yfir atlantshafsþorsk, þjóðlegt og alþjóðlegt í senn, líkt og efniviður samnefnds tónlistarhóps. Gadus Morhua Ensemble fæst við íslensk og erlend þjóðlög, einsöngslög í eigin útsetningum og frumsamið ljóð- og tónefni. Saman fléttast hljómheimur barokksins og baðstofunnar, með ferskum andblæ pönks og almenns þjóðlaga-usla.
XENIA LÖFFLER
Xenia Löffler er einn fremsti barokkóbóleikari heims um þessar mundir og hefur sinnt stöðu aðalóbóleikara AKAMUS hljómsveitarinnar (Akademie für Alte Musik Berlin) frá árinu 2001 sem þekkt er fyrir sögulega upplýstan flutning. Xenia hefur komið fram sem einleikari á þekktustu sviðum heims á borð við Carnegie Hall, Wigmore Hall og Concertgebouw.
Diskógrafía hennar inniheldur verðlaunaðar upptökur á verkum eftir Bach, Vivaldi og Platti, sem sýna snilli hennar á barokkóbóið. Fyrir utan tónlistarferil sinn, gegnir Löffler prófessorsstöðu á barokkóbó við Universität der Künste Berlin og heldur reglulega meistaranámskeið víða um heim.
Löffler hefur skapað sér nafn sem einn fremsti barokkóbóleikari heims með næmri og sögulegri túlkun á ríkulegum arfi tónbókmennta barokkóbósins
NATALIA DUARTE
Natalia Duarte er víóluleikari og tónlistarkennari frá Costa Rica sem er búsett í Reykjavík. Sem tónlistarflytjandi hefur hún lagt stund á sögulega upplýstan flutning á tónlist fyrri alda, spuna og skapandi tónlistarmiðlun. Sem tónlistarkennari hefur hún lagt sérstaklega áherslu á tónlistarmiðlun fyrir yngstu áhorfendur og fjölskyldur þeirra. Hún hefur reynslu af kennslu í tónlistarskólum og menningarfélögum Spáni, Ítalíu og Íslandi.
Hún lauk mastersgráðu í tónmenntakennslu frá Tónlistarskólanum í Padúa árið 2022 og fór síðan í áframhaldandi nám í tónmenntakenningunni Music Learning Theory fyrir börn á aldrinum 0-6 ára hjá AIGAM í Mílanó. Á Íslandi hefur hún stundað þjálfun í Tónagull-aðferðinni hjá Helgu Rut Guðmundsdóttur. Árið 2024 hlaut Natalia styrk frá Barnamenningarsjóði fyrir verkefnið Music Moment / Tónlistarstund, tónleikaröð fyrir börn á aldrinum 0-6 ára í Norræna húsinu. Einnig hefur Natalía tekið þátt í Kátt Klambra hátíðinni.
Auk kennslustarfs síns sérhæfir Natalia sig sem flytjandi í samtímatónlist og upprunaflutningi á gamalli tónlist. Natalía hefur reglulega komið fram með barokksveitum og kammerhópum eins og Ensemble laBarocca di Milano (Ítalíu), Arianna Art Ensemble (Ítalíu), Academia Montis Regalis (Ítalíu), Innsbrucker Festwochenorchester (Austurríki), Orkester Nord (Noregi) og öðrum. Á Íslandi hefur hún unnið með hljómsveitum eins og Barokkbandinu Brák, Cauda Collective, Camerarctica, Capella Reykjavicensis og Kammersveit Breiðholts, og komið fram á viðburðum í Hörpu, Sumartónleikum í Skálholti og Salnum í Kópavogi. Hún er meðstofnandi Kammerhópsins ConsorTico sem kom fram á Reykjavík Early Music Festival árið 2024.
ANNA TÓTH
Anna Tóth er sellóleikari sem sérhæfir sig í upprunaflutningi á barokktónlist. Fædd árið 1995, hóf hún að leika á selló 7 ára gömul og fann fljótt ástríðu fyrir hljómsveitarleik. Anna gekk til liðs við ungmannahljómsveitir 10 ára gömul og tók þátt í tónleikaferðum og keppnum. Í gegnum árin hefur hún komið fram með ýmsum hljómsveitum, þar á meðal Sinfóníuhljómsveit Szeged, Sinfóníuhljómsveit Kecskemét, Sinfóníuhljómsveit Þrándheims og Einleikurum Þrándheims.
Djúp ástríða hennar fyrir barokktónlist leiddi til þess að hún hóf meistaranám í barokkselló við tónlistardeild NTNU í Þrándheimi, þar sem hún lærði hjá Torleif Holm. Hún hefur unnið með tónlistarmönnum og hljómsveitum á borð við TSO Tidlig, Ann Hallenberg og Solis Consort. Anna tók einnig þátt í verkefninu "En reise gjennom tidligmusikken", sem kynnir fornaldartónlist fyrir nýjum áheyrendum.
SVAFA ÞÓRHALLSDÓTTIR
Svafa Þórhallsdóttir er fædd í Reykjavík, 1981. Hún lauk tónlistar kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og síðar mastersgráðu í söng og tónmenntakennslu frá Konunglega Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Svafa starfar sem tónlistarkennari, söngvari og kórstjóri í Kaupmannahöfn. Hún hefur sérstakan áhuga á tónlistarþroska hjá börnum, og er hún hluti af tónlistar hópnum “Den poetiske elefant”/ “Ljóðræni fíllinn” sem flytur reglulega klassíska tónleika fyrir börn.
OLGA HEIKKILÄ
Olga Heikkilä er ung finnsk sópransöngkona sem hefur sérhæft sig í óperusöng, kirkjusöng og kammertónlist. Hún kemur reglulega fram á sviðum óperuhúsanna í Stuttgart og Berlinar ríkisóperunum auk La Monnaie í Brussel, Belgíu.
Hún er mjög eftirsótt sem ljóðasöngvari og heldur reglulega einsöngstónleika í Evrópu og vestanhafs. Olga lauk námi frá Sibeliusarakademíunni í Helsinki og Konunglegu dönsku óperu akademíunni og hefur að auki lært hjá Dame Kiri Te Kanawa og Mikael Eliasen.
Olga Heikkilä hefur hlotið mörg verðlaun og námsstyrki í alþjóðlegum söngkeppnum.